Velheppnaðir íbúafundir

Í síðustu viku fóru fram fimm íbúafundir þar sem kynnt voru drög að stöðugreiningu og forsendum fyrir sameiningu Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar. Fundirnir voru haldnir á Barðaströnd, Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal ásamt því sem haldinn var fundur sérstaklega fyrir fólk af erlendum uppruna á Tálknafirði. Þegar kynningu lauk bauðst íbúum að taka þátt í vinnustofu þar sem þau gátu komið á framfæri sínu áliti á hugsanlegri sameiningu Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar. Samstarfsnefndin mun í framhaldinu vinna úr þeim ábendingum. 

Myndir Elínar Elísabetu Einarsdóttur vöktu mikla eftirtekt á fundinum en hún teiknar svokallaðar snarteikningar meðan á fundi stóð. Elín Elísabet fangaði umræður íbúa á stórskemmtilegan hátt og sjá má nokkur dæmi af myndum eftir hana í þessari frétt. Frekari myndir frá fundunum verða birtar síðar í vikunni, bæði venjulegar ljósmyndir sem og allar myndir er Elín Elísabet teiknaði. 

Hér má nálgast drög að stöðugreiningu og forsendu fyrir sameiningu Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar sem farið var yfir á fundinum. 

Samstarfsnefndin hefur einnig ákveðið að gefa íbúum lengri tíma til að koma með ábendingar við umrædda stöðugreiningu og forsendur fyrir sameiningu sveitarfélaganna. Þannig geta þau sem ekki komust á íbúafundina einnig fengið tækifæri til að tjá sig um sameiningu sveitarfélaganna áður en samstarfsnefndin skilar endanlegu áliti til sveitarstjórna síðar í júní. 

Íbúar þurfa að skrá sig inn á www.menti.com og skrá inn kóðann 5924 2398 og í framhaldinu birtast spurningar fyrir íbúa til að svara. Við hvetjum íbúa til að skoða kynninguna fyrst og í framhaldinu svara könnuninni. Könnunin verður opin til 12:00 miðvikudaginn 14. júní n.k.

Fámenni stundum til trafalaAllir hafi rödd