Spurt og svarað

Spurt og svarað

Hvað gerist ef tillagan er samþykkt?

Ef sameiningin er samþykkt skipa sveitarstjórnir hlutaðeigandi sveitarfélaga sérstaka stjórn sem hefur það hlutverk að undirbúa stofnun nýs sveitarfélags. Hver sveitarstjórn skipar þrjá fulltrúa í stjórnina. Hlutverk stjórnarinnar er að semja samþykkt um stjórn og fundarsköp hinnar nýju sveitarstjórnar sem gilda mun fyrir hið nýja sveitarfélag þar til því hefur verið sett sérstök samþykkt. Stjórnin tekur einnig ákvarðanir um fjárhagsmálefni hins nýja sveitarfélags, tekur saman yfirlit yfir allar samþykktir og reglugerðir sem gilda í þeim sveitarfélögum sem sameinuð hafa verið og skal hefja vinnu við endurskoðun þeirra og samræmingu.

Er atkvæðagreiðslan bindandi?

Já, niðurstaða kosninga um sameiningu er bindandi fyrir hlutaðeigandi sveitarstjórnir.

Hverjir mega greiða atkvæði?

  • Íbúar sem skráðir eru með lögheimili í Tálknafjarðarhrepp og Vesturbyggð 22 dögum fyrir fyrsta kjördag, þ.e. 17.september 2023.
  • Kosningaaldur miðast við þá sem verða 16 ára og eldri þegar kosning fer fram.
  • Íslenskir ríkisborgarar
  • Norrænir ríkisborgarar óháð búsetutíma á Íslandi
  • Aðrir erlendir ríkisborgarar séu þeir með 3 ára samfellda búsetu (lögheimili) á Íslandi
  • Þjóðskrá hefur opnað fyrir rafrænan aðgang að kjörskrá svo kjósendur geta með einföldum hætti kannað hvort þeir eru skráðir á kjörskrá í kosningunum. Sjá hér

Fá íbúar að taka þátt í að móta tillögu um sameiningu?

Já. Skipaðir verða starfshópar sem í sitja fulltrúar sveitarfélaganna tveggja. Hver hópur fjallar um afmarkaða þætti starfseminnar s.s. stjórnsýslu og fjármál. Síðar í ferlinu verða haldnir opnir íbúafundir þar sem niðurstöður starfshópanna verða kynntar og íbúar geta komið sjónarmiðum sínum, athugasemdum og hugmyndum á framfæri.

Hvað verður um þorrablótin ef sameining verður samþykkt?

Þorrablótin eru ekki haldin á vegum sveitarfélaganna. Sameining sveitarfélaganna hefur því ekki bein áhrif á það hvort þau verða haldin áfram á hverjum stað fyrir sig.

Verða íþróttafélögin sameinuð?

Sveitarfélögin hafa ekki áhrif á það hvort sjálfstæð og frjáls félög sameinast, hvort sem það eru íþróttafélögin, björgunarsveitir eða önnur félög.

Hvernig verður nafn sameinaðs sveitarfélags ákveðið?

Það verður ákveðið ef sameining verður samþykkt. Algengt verklag er að kalla eftir tillögum að nöfnum, eiga samráð við Örnefnanefnd og leggja því næst tillögur til atkvæðagreiðslu meðal íbúa.

Hveru hátt er framlag frá ríkinu vegna sameiningar?

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir líklega um 700 milljónir í sameiningarframlög til sameinaðs sveitarfélags.

Hvar á stjórnsýslan að vera og á að byggja upp þjónustukjarna?

Þetta er ein af þeim spurningum sem samstarfsnefnd er að vinna í að svara í samstarfi við starfshópa og íbúa.

Mun sameinað sveitarfélag ekki þurfa að fækka starfsfólki?

Reynsla annara sveitarfélaga er að ekki þurfi að fækka starfsfólki, frekar að þeim fjölgi í það minnsta tímabundið meðan breytingarnar ganga í gegn.

Verða skólar og leikskólar sameinaðir?

Lagt er upp með að skólar og leikskólar starfi áfram á þeim stöðum þar sem þeir eru nú. Samrekstur skóla og leikskóla t.d. þar sem þeir eru undir sama þaki er viðfangsefni sem sífellt er til skoðunar, en ákvarðanir teknar með hagsmuna barnanna í fyrirrúmi.

Hvers vegna ætti sameinað sveitarfélag að eiga auðveldara með að þrýsta á betri vegi? Þau gætu krafist þeirra án sameiningar.

Sveitarfélögin hafa lengi barist fyrir samgöngubótum og orðið ágengt með mörg verkefni. Reynslan hefur sýnt að stærri og sameinuð sveitarfélög hafa átt auðveldar með að koma sínum hagsmunamálum á dagskrá, og fylgja þeim eftir við Alþingi og ríkisstjórn.

Hvenær tekur sameiningin gildi ef hún verður samþykkt?

Ef sameiningin verður samþykkt tekur hún gildi í kjölfar sveitarstjórnarkosninga sem haldnar verða í maí 2024. Gildistakan yrði í maí eða júní þegar ný sveitarstjórn tekur við stjórnartaumunum.

Hvert er hlutverk sveitarfélaga á Íslandi?

Verkefni sveitarfélaga eru mjög fjölbreytt, en helstu verkefni eru fræðslumál, félagsþjónusta og skipulagsmál. Hér má nálgast yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga.