Aðdragandinn

Sameiningaviðræður sveitarfélaganna sem nú standa yfir eiga sér langan aðdraganda en sveitarfélögin eiga langa sögu af farsælu samstarfi sín á milli. Upphafið má rekja til valkostagreiningar á sameiningarkostum sem varpaði ljósi á að helstu áhersluatriði í sameiningaviðræðum eru þær sömu hjá sveitarfélögunum. Þar var efst á lista bættar samgöngur á milli þéttbýliskjarna sveitarfélaganna með göngum undir Mikladal og Hálfdán.

Í framhaldinu var ákveðið að skipa verkefnisstjórn um mögulega sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps sumarið 2022. Verkefnisstjórnin lagði síðan til við sveitarstjórnir sveitarfélaganna snemma árs 2023 að farið yrði í formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna. Í febrúar 2023 var samþykkt á fundi sveitarstjórna beggja sveitarfélaga að hefja formlegar sameiningarviðræður sem munu enda á íbúakosningu um sameiningu sem stefnt er að fari fram fyrir lok ársins 2023.